21
Sep 13

Nú er farnir frá okkur tveir stóðhestar enn, en um er að ræða Ljóna og Hug frá Ketilsstöðum. Ljóni er undan heiðursverðlaunahrossunum Ljónslöpp og Álfasteini. Hæst hefur Ljóni hlotið 8,47 í kynbótadómi  og m.a hlotið einu sinni einkunnina 10 fyrir hófa. Ljóni var hátt metinn sem kynbótahestur hér hjá okkur og er hann eins og er með tvö sýnd afkvæmi, bæði úr okkar ræktun. Þær hlutu báðar 1.verðlaun fimm vetra gamlar og eru undan honum tveggja og þriggja vetra gömlum en þá voru settar til hans örfáar hryssur. Ljóni er með 87 skráð afkvæmi í Worldfeng og er með 123 stig í kynbótamati. Til gamans má geta mæður Ljóna og Spuna frá Vesturkoti eru báðar undan Oddi frá Selfossi þannig að hér er um að ræða 3/4 bræður, þar sem báðir eru þeir undan Álfasteini frá Selfossi.

Hugur er undan Ör frá Ketilsstöðum og heiðursverðlaunahestinum og Sleipnisbikarshafanum Hróðri frá Refsstöðum. Hugur hlaut hæst í kynbótadómi 8,29 og hefur hlotið 9,0 fyrir bæði skeið og vilja, enda mikil skeiðgen í honum, móðir hans, Ör er undan Kjarval frá Sauðárkróki og heiðursverðlaunahryssunni Framkvæmd frá Ketilssstöðum, en tvö afkvæmi Framkvæmdar hafa hlotið 9,5 fyrir skeið og Flugnir sonur hennar 10 ásamt því að Hjörvar bróðir hennar hlaut 10 á sínum tíma. Ör sjálf var aldrei tamin en hún slasaði sig illa á fæti sem tryppi. Hugur er med fjögur skráð afkvæmi í Worldfeng og tvö þeirra eru frá Syðri Gegnishólum fædd árin 2011 og 2012. Hugur er með 122 stig í kynbótamati.

Kaupandi þessarra hesta er Complete Horses í Danmörku, en knapar þeirra verða Tania Höyvang Olsen fyrrum tvöfaldur heimsmeistari í 100 metra skeiði en hún stílar á Ljóna sem sinn næsta keppnishest og svo verður nemandi hennar Maja Blitskov knapi á Hug, en hún er keppandi í ungmennaflokki eins og er. Við erum náttúrlega mjög ánægð með að svo reyndur knapi skuli sjá og hafa yfirumsjón með þjálfun á þessum hestum og að markmiðið sé keppni. Við óskum nýjum eiganda og knöpum alls hins besta og velfarnaðar í framtíðinni.

 Tania og Maja 2 Tania og Maja 1 Tania og Maja 3

Tania Höyvang Olsen og Maja Blitskov með nýju hestunum sínum þeim Ljóna og Hug, er fóru utan í fyrradag. Myndir: Gangmyllan.