30
Nov 12

Eins og ég var búin að skrifa hér áður í fréttum er Framkvæmd komin með heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og erum við búin að bíða spennt eftir dómsorðinu hennar. Við reiknuðum með því að eitthvað yrði minnst á skeið og vilja og urðum við ekki fyrir vonbrigðum. Hér birti ég myndir af móður hennar og bróður, henni sjálfri og nokkrum afkvæmum.

Hugmynd frá Ketilsstöðum Framkvæmd frá Ketilsstöðum Hjörvar Ketilsstöðum FM 1996  Flugnir frá Ketilsstöðum Minning frá Ketilsstöðum Djorfung frá Ketilsstöðum 

Hugmynd, mynd: Valdimar Kristinsson. Framkvæmd og Hjörvar: Eirikur Jónsson. Flugnir og Minning: Gangmyllan og Djörfung: Axel Jón.

Hugmynd móðir Framkvæmdar var með heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og hlaut 8,5 fyrir vilja og skeið. Framkvæmd var með 9,0 fyrir skeið og 9,5 fyrir vilja. Hjörvar bróðir Framkvæmdar hlaut 10 fyrir skeið og 9,0 fyrir vilja 6 vetra gamall, með Daniíel Jónsson í hnakknum en á myndinni að ofan er hann setinn af Atla Guðmundssyni sem sigraði  A flokkin á honum á FM´96. Svo er Flugnir sonur Framkvæmdar með 10 fyrir skeið og 9,5 fyrir vilja en því náði hann í sumar 7 vetra gamall. 4 vetra fékk hann 9,0 fyrir skeið. Minning dóttir Framkvæmdar fékk 9,5 fyrir skeið og 9,0 fyrir vilja 5 vetra gömul. Síðasta myndin er af Djörfungu en hún fékk 9,5 fyrir skeið og vilja 4 vetra gömul.

Dómsorðið er svohljóðandi:

Framkvæmd frá Ketilsstöðum gefur hross undir meðallagi á stærð. Höfuð er svipgott með fínleg eyru og vel opin augu. Hálsinn er all langur, meðalreistur við háar herðar. Bakið er vöðvað en beint og lendin djúp og afturdregin. Afkvæmin eru hlutfallarétt. Liðir á fótum eru sverir og sinar eru öflugar, fætur eru réttir í liðum en all nágengir. Hófar eru prýðisgóðir, efnisþykkir og djúpir en prúðleiki er slakur. Framkvæmd gefur taktgott tölt, skrefmikið brokk og gott fet. Skeiðgeta er úrval og skeiðið ferðmikið, takthreint og öruggt. Afkvæmin eru harðviljug og fylgin sér og fara vel.

Framkvæmd frá Ketilsstöðum gefur flugvakra, öskuviljuga alhliða gæðinga. Framkvæmd hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.