Brúni hesturinn á myndunum er þriggja vetra sonur Væntingar frá Ketilsstöðum og Álffinns. Vænting er undan Hugmynd frá Ketilsstöðum og Toppi frá Eyjofsstöðum. Vænting er m.a móðir Natans sem við misstum langt fyrir aldur fram en hann er um þessar mundir að sanna sig sem kynbótahestur, eins og t.d í frábærum sonum sínum Þresti frá Efri Gegnishólum og Narra frá Vestri Leirárgörðum. Natan var undan Kolfinni frá Kjarnholtum og hlaut hann 8,40 í aðaleinkunn fimm vetra gamall. Annað afkvæmi Væntingar með fyrstu verðlaun er Stemmning frá Ketilsstöðum, faðir hennar er Sveinn Hervar frá Þúfu og hlaut hún 8,02 í aðaleinkunn fimm vetra gömul.
Folinn fer vel af stað í tamningu og sýnir tölt, brokk og stökk og veitið því athygli að hann er eins og flest systkini sín í fyrsta árgangi, vel fextur. Pínulítið sérstakt þar sem Álffinnur sjálfur var með 6,5 fyrir prúðleika fjögurra vetra gamall og lækkaði svo niður í 6,0 fimm vetra gamall. Sem komið er erum við mjög ánægð með afkvæmi Álffinns í heild, þau eru stór, mjög vel þroskuð, næm og fljót að læra. Þau eru með góð gangskil og góðar hreyfingar. Við höfum stólpa trú á honum sem kynbótahest, enda höfum við haldið óvenju mikið undir hann. Við hlökkum til næsta árs því þá koma til tamningar töluvert af afkvæmum hans frá hinum og þessum, en í fyrsta árganginum eru fimmtán afkvæmi og fjórtan þeirra eru hér hjá okkur. Annað við Álffinn sem mér finnst persónulega skemmtilegt er að það eru hlutfallslega ekki mörg tryppi undan honum illa skjótt og þó nokkur þeirra vængskjótt sem mér finnst fallegasti skjótti liturinn.
Birti nokkara myndir af brúna folanum m.a ein af honum á tölti þar sem gæðin í myndinni er hrikaleg en mér finnst hún skemmtileg svo ég birti hana samt, þetta er jú bara heimasíða ( :