Jæja þá kom að því, Meistaradeildinni lauk á föstudagskvöldið, með síðustu tveim keppnunum sem voru slaktaumatölt og skeið í gegnum höllina. Það var spennandi allt fram á síðustu stundu og aldrei að vita hvað hefði gerst ef ég hefði ekki misst Segul upp rétt fyrir markið í skeiðinu, en það eru og verða alltaf einhver "ef". Staðreyndin er sú að okkur gekk í það heila mjög vel. Óhætt er að segja að það sé mikil bæting frá í fyrra, en þá urðum við neðst og núna enduðum við í þriðja sæti í liðakeppninni og kosin skemmtilegasta liðið af áhorfendum. Ég var kosin fagmannlegasti knapinn, einnig af áhorfendum og endaði í þriðja sæti í einstaklingskeppninni. Liðið landaði tvö gull, tvö silfur og þrjú brons ásamt því að ná 8 skifti verðlaunasæti frá 5 til 9 sæti.
Til gamans má geta að við kepptum 12 sinnum á hestum úr okkar ræktun Ketilsstaðir/Syðri Gegnishólar. Komum því að jafnaði fram tvo hesta í hverri grein, nema í gæðingaskeiði, þá var aðeins eitt hross( reyndar er ég einn af ræktendunum af Elliða frá Fosshofi, þó ég telji hann ekki með). Í skeiðinu vorum við lika bara með eitt hross og einnig í skeiðinu í gegnum reiðhöllini. Af þessum 12 skiptum náðu þessi hross í 8 verðlauna sæti. Við erum mjög sátt með þennan árángur, en auðvitað er mjög gaman þegar hrossin sem maður ræktar stimpla sig inn í keppni en það hefur verið okkar stefna að koma þeim á framfæri í keppni. Þetta er svona prófsteinn fyrir okkur að við séum á réttri leið í ræktun. Við skulum ekki gleyma að í meistaradeildinni í ár var öllu tjaldað enda eina leiðin fyrir menn að komast á blað. Sjaldan hafa sést vígalegri ráslistar, hestar, knapar, áhorfendur, framkvæmdanefnd og dómarar. Ekki að gleyma Thelmu Tómasson og Stöð 2, né Óla Pétri og öðrum starfsmönnum. Hafið þökk fyrir frábæran vetur í alla staði. Svo viljum við auðvitað þakka Bjarna á Þóröddsstöðum, Elvari á Skörðugili, Krissu og Agnari á Jaðri og Hafliða í Ármóti kærlega fyrir hestlánið, það er gott að eiga góða að. Birti hér eitthvað af myndum sem við erum ýmist búin að sníkja og stela hér og þar.
Myndirnar eru frá heimasiðu meistaradeildarinnar, Hestafréttum og Óðni Erni Jóhannssyni.