Þá er Landsmóti 2014 lokið og verður að segja að allt í allt gekk það mjög vel hjá okkur þó að maður hefði óskað eftir betri útkomu fyrir graðhestana okkar. Eins og áður hefur komið fram tóku 14 hesta héðan þátt, Brynja og Sprengja stóðu sig mjög vel og enduðu í 5. sæti í ungmennaflokki en Berglind og Simba vantaði örfáar kommur til að komast í milliriðil.
Elin og Frami voru einni kommu frá að komast í milliriðil, snemma inn á og ein á vellinum, það var mínus fyrir þau. Minning og Bergur bættu tímann sinn í 250 metra skeiði verulega, fóru á 23,11 og enduðu í sjöunda sætinu.
Álfhildur var fyrsta kynbótahrossið í dóm hjá okkur, átti stjörnusýningu og uppskar 10,0 fyrir tölt og hækkaði sig úr 8,38 í 8,48. Í yfirlitssýningunni hélt velgengnin svo áfram og önnur 10 bættist við, en hún var fyrir vilja og geðslag. Aðaleinkunnin hækkaði úr 8,48 í 8,52 og efsta sætið í 6 vetra flokki hryssna, óhætt er að segja að það hafi verið umfram væntingar.
Katla kom inn á mótið með 8,21 í aðaleinkunn, hún hækkaði aðaleinkunn í 8,33 en það dugði samt ekki til verðlaunasætis í flokki sex vetra hryssna.
Snekkja systir hennar kom inn á mót með 8,42, dómurinn á henni breyttist verulega og aðaleinkunn varð 8,41 og fjórða sæti í flokki fimm vetra hryssna. Tíbrá hækkaði, kom inn á mót með 8,19 og endaði með 8,25, fimm vetra klárhryssa með 9,0 fyrir nánasr öll atriði.
Hamingja frá Hellubæ fékk 8,54 í aðaleinkunn og það er hvorki meira né minna en heimsmet í fjögurra flokki hryssna og efsta sætið. Til gamans má geta að ég sýndi Þulu frá Hellubæ, móðir Hamingju á LM´02. Þula hlaut 8,26 í aðaleinkunn og hlaut m.a 9,0 fyrir tölt sem var svaka flott á fjögurra vetra tryppi á þeim tíma og annað sætið í þeim flokki á eftir Sömbu frá Miðsitju.
Vinátta frá Hellubæ lækkaði lítillega og endaði í 7,98 í fjögurra vetra flokki.
Álfastjarna var einnig í fjögurra vetra flokki, kom inn á mót með 8,16 og endaði í 7. sæti í fjögurra vetra flokki með 8,23. Hún fékk m.a 9,5 fyrir hægt tölt, fet og vilja og geðslag og svo 9,0 fyir tölt, stökk og fegurð í reið, ekki slæmt það fyrir fjögurra vetra tryppi.